Innlent

Heiðum á Vesturlandi lokað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hvasst er víða um land.
Hvasst er víða um land. vísir/vilhelm
Vegunum um Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Fróðárheiði hefur verið lokað vegna óveðurs. Í tilkynningu frá lögreglunni á Vesturlandi kemur fram að vegir séu að miklu leiti auðir á láglendi í landshlutanum en hálka á vegum. Óveður er á norðanverðu Snæfellsnesi og á Laxárdalsheiði.

Mjög hvasst er víða á suðvesturhorninu til að mynda á Reykjanesbraut og á Hellisheiði. Þá er krapi á vegum á Sandskeiði, Hellisheiði, Mosfellsheyði og Lyngdalsheiði. Sandfok er við Óseyrarbrú.

Á Vestfjörðum má gera ráð fyrir hálku, krapa eða snjóþekju á vegum og á stöku stað skafrenningi og éljum. Hvasst er á Norðurlandi og er sérstaklega varað við hviðum á Siglufjarðarvegi í tilkynningu frá Vegagerðinni. Vegir á Austurlandi eru að stærstum hluta auðir.

Gert er ráð fyrir að veðrið gangi niður á suðvestur hluta landsins síðdegis en haldi áfram för sinni yfir landið. Líklega lægir ekki fyrr en í nótt á norðanverðu landinu. Á mörgum vegarköflum má gera ráð fyrir að él og krapi falli á vegi þar sem voru hálir fyrir. Er því full ástæða til þess að fara varlega í umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×