Körfubolti

Chalmers fékk enga Bonneau-meðferð hjá Memphis Grizzlies

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Chalmers og Stefan Bonneau.
Mario Chalmers og Stefan Bonneau. Vísir/Getty
Mario Chalmers hefur misst samning sinn hjá Memphis Grizzlies í NBA-deildinni í körfubolta eftir að hafa slitið hásin í leik á móti Boston Celtics í fyrri nótt.

Mario Chalmers sleit hásina sína þegar 6:57 voru eftir af þriðja leikhlutanum í leiknum á móti Boston en hann var á sínu fyrsta tímabili með liðinu.

Forráðamenn Memphis Grizzlies voru ekkert að bíða boðanna heldur sögðu strax upp samningi sínum við Chalmers sem þeir fengu í skiptum við Miami Heat fyrr á tímabilinu.

Mario Chalmers fékk því enga Bonneau-meðferð hjá Memphis Grizzlies en Njarðvíkingar hafa hugsað vel um Bandaríkjamanninn Stefan Bonneau, þrátt fyrir að hann hafi slitið hásin fyrir tímabilið.

Chalmers er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Miami Heat þar sem hann varð tvisvar sinnum NBA-meistari eða 2012 og 2013. Mario Chalmers var með 10,8 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik með Memphis Grizzlies á þessu tímabili. Hann var með 8,8 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali á átta tímabilum með Miami.

„Hann hefur verið í mikilvægu hlutverki hjá okkur í vetur og átti mikinn þátt í árangri liðsins, hvort sem hann var í byrjunarliðinu eða kom inn af bekknum," sagði Chris Wallace, framkvæmdastjóri Memphis Grizzlies.

„Málið er að tímabilið er búið hjá honum og leikmannahópurinn er orðinn þunnur eftir öll þessi meiðsli. Það var því nauðsynlegt að losa sæti í hópnum," sagði Wallace.

Mario Chalmers er ekki fyrsti leikmaður Memphis Grizzlies sem spilar ekki meira á þessu tímabili. Stórstjarnan Marc Gasol þurfti að fara í aðgerð á fæti og þá hafa fleiri lykilmenn verið frá vegna meiðsla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×