Fótbolti

Guðmundur tekur lagið á nýja heimavellinum | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur hefur spilað þrjá A-landsleiki.
Guðmundur hefur spilað þrjá A-landsleiki. vísir/getty
Guðmundi Þórarinssyni, nýjasta leikmanni Rosenborg, er fleira til lista lagt en að sparka í fótbolta. Guðmundur er nefnilega fær söngvari auk þess sem hann spilar á gítar.

Guðmundur skrifaði undir þriggja ára samning við norsku meistarana á dögunum en hann kemur til Rosenborg frá Nordsjælland í Danmörku. Hjá Rosenborg hittir Guðmundur fyrir landa sína, Hólmar Örn Eyjólfsson og Matthías Vilhjálmsson.

Í myndbandi sem birtist á vefsíðu TV2 í Noregi sést Guðmundur taka lagið á nýja heimavellinum, Lerkendal Stadion. Guðmundur tekur m.a. gamla Coldplay-slagarann Yellow.

Þrátt fyrir tónlistarhæfileikana segist Guðmundur fyrst og fremst vera fótboltamaður.

„Ég er fyrst og fremst hérna til að spila fótbolta. En tónlistin hjálpar mér að dreifa huganum,“ sagði Guðmundur sem gaf nýlega út lagið Saman sem hann samdi ásamt bróður sínum, Ingólfi Þórarinssyni, betur þekktur sem Ingó Veðurguð.

Ingólfur er einnig liðtækur fótboltamaður en hann samdi við 2. deildarlið Ægis fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Hann hefur einnig spilað með Selfossi, Fram, Víkingi R., Hamri og KFS á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×