Fótbolti

Kominn til Rosenborg til að vinna titla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Guðmundur Þórarinsson er genginn til liðs við norska liðið Rosenborg en hann hefur skrifað undir þriggja og hálfs árs samning við félagið. Fyrir hjá félaginu eru þeir Matthías Vilhjálmsson og Hólmar Örn Eyjólfsson.

“Tilfinningin er mjög góð. Rosenborg er félag sem hefur allt til að bera og ég hlakka til að fara af stað,” sagði Guðmundur í viðtali á heimasíðu félagsins en hann kemur frá danska liðinu Nordsjælland.

Guðmundur hefur verið fastamaður í liði Nordsjælland á núverandi leiktíð en hann spilaði síðast með liðinu í 3-1 sigri á OB fyrr í þessum mánuði. Alls á hann að baki 36 leiki fyrir Nordsjælland og skoraði hann í þeim eitt mark.

Guðmundur þekkir vel til norska boltans en hann var á mála hjá Sarpsborg 08 í tvö tímabil, 2013 og 2014. Þar skoraði hann tíu mörk og lagði upp fjórtán til viðbótar í 68 leikjum.

“Ég spilaði á báðum köntum hjá Sarpsborg en ég lít frekar á mig sem miðjumann,” sagði Guðmundur sem segir markmiðin skýr hjá félaginu. “Ég er hingað kominn til að vinna. Vinna leiki og vinna titla."

Aðeins markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er eftir af Íslendingunum sem voru á mála hjá Nordsjælland. Guðjón Baldvinsson fór í Stjörnuna, Adam Örn Arnarson í Álasund, Guðmundur í Rosenborg auk þess sem að Ólafur Kristjánsson er hættur sem þjálfari liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×