Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Njarðvík 68-73 | Njarðvík komið yfir

Ingvi Þór Sæmundsson í Ásgarði skrifar
Haukur Helgi var flottur í kvöld.
Haukur Helgi var flottur í kvöld. vísir
Njarðvík er komið í 2-1 í einvíginu gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum Domino's deildar karla í körfubolta eftir fimm stiga sigur, 68-73, í þriðja leik liðanna í Ásgarði í kvöld.

Allir þrír leikirnir í einvíginu hafa unnist á útivelli en með sigri í Ljónagryfjunni á þriðjudaginn tryggja Njarðvíkingar sér sæti í undanúrslitum.

Gestirnir voru heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum. Þeir voru sjóðheitir í fyrri hálfleik, hittu vel (60%) og leiddu með 12 stigum, 36-48, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Þrettán stigum munaði á liðunum, 50-63, fyrir 4. og síðasta leikhlutann. Þar voru Stjörnumenn sterkari aðilinn og komust yfir, 68-67, en Njarðvíkingar héldu haus, skoruðu fimm síðustu stigin og tryggðu sér sigurinn.

Fyrri hálfleikurinn í leik kvöldsins var nokkuð frábrugðinn fyrstu tveimur leikjunum; mun opnari og meira skorað. Í seinni hálfleiknum tók varnarleikurinn hins vegar yfir.

Sóknarleikur Njarðvíkinga var afbragðs góður en í hálfleik voru þeir komnir með 12 stoðsendingar og voru með 60% skotnýtingu.

Oddur Rúnar Kristjánsson var heitur í upphafi leiks en hann skoraði níu stig í 1. leikhluta og fór fyrir sínum mönnum í stigaskorun. Haukur Helgi Pálsson var einnig flottur en hann var með 11 stig, fjögur fráköst og þrjár stoðsendingar í fyrri hálfleik.

Hjá Stjörnunni var Justin Shouse ógnandi, með sjö stig í 1. leikhluta og níu í fyrri hálfleik, og þá fékk liðið kærkomið framlag frá Arnþóri Frey Guðmundssyni en hann negldi niður fjórum þristum í fyrri hálfleik. Al'lonzo Coleman hefur hins vegar oft spilað betur og var aðeins með sjö stig í fyrri hálfleik.

Þremur stigum munaði á liðunum, 18-21, eftir 1. leikhluta og í hálfleik var munurinn orðinn 12 stig, 36-48.

Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn vel og eftir tvo þrista í röð frá Justin og Arnþóri var munurinn aðeins fjögur stig, 46-50. Þá gáfu Njarðvíkingar aftur í og kláruðu 3. leikhluta á 13-4 spretti. Fyrir lokaleikhlutann munaði því 13 stigum á liðunum, 50-63.

Í 4. leikhluta voru Garðbæingar öflugari. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt og komust loks yfir, 68-67, þegar Marvin Valdimarsson setti niður þrist þegar ein mínúta og 20 sekúndur voru til leiksloka.

Jeremy Atkinson var fljótur að svara og í næstu sókn Stjörnunnar geigaði þriggja stiga skot Marvins.

Njarðvík fór upp og Haukur Helgi klikkaði á erfiðu skoti. Atkinson reis hins vegar niður frákastið og Njarðvíkingar tóku leikhlé þegar 21 sekúnda var eftir.

Að því loknu fann Atkinson Ólaf Helga Jónsson undir körfunni og hann laumaði boltanum ofan í og jók muninn í þrjú stig, 68-71.

Lokasókn Stjörnunnar var illa framkvæmd og endaði með töpuðum bolta. Heimamenn þurftu því að brjóta og sendu Odd á línuna. Hann var ískaldur, setti bæði vítin niður og kláraði leikinn fyrir sína menn. Lokatölur 68-73, Njarðvík í vil.

Oddur var stigahæstur í liði gestanna með 16 stig en Haukur og Atkinson komu næstir með 15 stig hvor. Sá síðastnefndi tók einnig 10 fráköst.

Ólafur Helgi var betri en enginn og skoraði 11 stig af bekknum, þar af mikilvægustu körfu leiksins eins og áður sagði. Þá skilaði Hjörtur Hrafn Einarsson sex stigum, fjórum fráköstum, fjórum stoðsendingum og þremur vörðum skotum. Flottur leikur hjá honum.

Justin skoraði 21 stig fyrir Stjörnuna og Arnþór og Coleman komu næstir með 15 stig hvor. Coleman hefur oftast spilað betur en í kvöld og Stjörnumenn þurfa meira og betra framlag frá honum í fjórða leiknum á þriðjudaginn.

Þá munaði miklu um að Marvin og Tómas Heiðar Tómasson náðu sér ekki á strik en þeir gerðu aðeins sjö stig samanlagt.

Tölfræði leiks:

Stjarnan-Njarðvík 68-73 (18-21, 18-27, 14-15, 18-10)

Stjarnan: Justin Shouse 21/4 fráköst/5 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 15, Al'lonzo Coleman 15/8 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 6/6 fráköst, Marvin Valdimarsson 5/5 fráköst, Ágúst Angantýsson 4, Tómas Heiðar Tómasson 2.

Njarðvík: Oddur Rúnar Kristjánsson 16/5 fráköst, Haukur Helgi Pálsson 15/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jeremy Martez Atkinson 15/10 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 11/5 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 7/4 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 6/4 fráköst/3 varin skot, Adam Eiður Ásgeirsson 3.

Hrafn: Erum að gera okkur þetta ótrúlega erfitt

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, var ósáttur við frammistöðu sinna manna í tapinu fyrir Njarðvík í kvöld.

"Það eru bara smáatriði sem skilja á milli undir lokin en ég held að það sé bara hollast fyrir okkur að líta á leikinn í heild sinni," sagði Hrafn eftir leik.

"Þeir komu bara grimmari út en við og það er óásættanlegt, ólíðandi og við eigum að skammast okkar fyrir hvernig við spiluðum þennan leik.

"Við skulum átta okkur á því að ef Addú [Arnþór Freyr Guðmundsson] hefði ekki sett niður stór skot í fyrri hálfleik hefði staðan verið enn verri. Sum skotanna sem við settum ofan í til að halda okkur inni í leiknum voru ekki endilega í sóknarflæðinu."

Stjörnumenn hafa tapað báðum heimaleikjum sínum í einvíginu og það er Hrafn óánægður með.

"Við þurfum að laga nákvæmlega sömu hlutina og við þurftum fyrir leik tvö. Það finnst mér það grátlegasta.

"Við unnum fyrir heimaleikjarétti í allan vetur, töpuðum bara tveimur heimaleikjum á allt tímabilið, til þess eins að tapa fyrstu tveimur leikjunum. Það er algjör hneisa," sagði Hrafn.

Stjörnumenn þurfa nú að endurtaka leikinn frá því í fyrra og vinna fjórða leikinn gegn Njarðvík til að tryggja sér oddaleik í einvíginu.

"Ég hef alltaf trú á því að mitt lið fari áfram en við erum að gera okkur þetta ótrúlega erfitt og í kvöld er ég verulega pirraður," sagði Hrafn að endingu.

Friðrik Ingi: Bæði lið farin að þekkja vel inn á hvort annað

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur, gat leyft sér að brosa eftir sigur hans manna á Stjörnunni í kvöld. En hver var lykilinn að honum?

"Fyrst og fremst frábær varnarleikur eins og hann hefur verið í seríunni. Bæði lið eru að spila mjög góða vörn. Þau eru líka farin að þekkja ansi vel inn á hvort annað eins og eðlilegt er þegar lið spila mörgum sinnum á skömmum tíma," sagði Friðrik í leikslok.

"Það sem ég er ánægðastur með í dag er að við héldum einbeitingu. Við misstum hana aðeins í seinni hálfleik í síðasta leik og lentum í þeirri stöðu að þurfa að elta.

"En núna héldum við haus. Við vitum að Stjarnan er með þannig lið að þeir geta skorað mikið á stuttum tíma. Það fór ekkert í hausinn á okkur þannig að við náðum að halda einbeitingu og gera það sem þurfti. En þetta var hörkuleikur eins og þeir eru allir búnir að vera," sagði þjálfarinn reyndi.

Njarðvíkingar spiluðu mjög góðan sóknarleik í fyrri hálfleik; voru með 60% skotnýtingu og 12 stoðsendingar. Friðrik er á því að það sé besti sóknarleikur sem hans menn hafa sýnt í einvíginu.

"Svona heilt yfir. Við höfum átt ágætis rispur í öllum leikjum en svona rimmur þróast oft þannig að varnarleikurinn er í fyrirrúmi," sagði Friðrik sem segir að Njarðvíkingar ætli að klára dæmið á heimavelli á þriðjudaginn.

"Auðvitað er það markmiðið. Við förum í hvern leik til þess að vinna, ekki spurning. Það breytist ekkert. Við erum búnir undir allt og það er ekkert sem kemur okkur á óvart," sagði Friðrik að lokum.

Bein lýsing: Stjarnan - Njarðvík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×