Fótbolti

Stigasöfnunin gengur illa hjá Theódóri Elmari og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Theodór Elmar Bjarnason í leik með AGF.
Theodór Elmar Bjarnason í leik með AGF. Vísir/Getty
Theódór Elmar Bjarnason og félagar í AGF þurftu að sætta sig við tap á heimavelli í botnbaráttuslag á móti Viborg í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Viborg vann leikinn 2-1 og náði með því átta stiga forskoti á AGF sem situr áfram í næstneðsta sæti deildarinnar.

Theódór Elmar Bjarnason lék allan leikinn og fékk meðal annars gult spjald í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Serge Déblé (18. mínúta) og Jeppe Curth (58. mínúta) komu Viborg í 2-0 en Jesper Lange minnkaði muninn þrettán mínútum fyrir leikslok.

Stigasöfnunin gengur afar illa þessa dagana hjá Theódóri Elmari og félögum en AGF hefur aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum leikjum sínum.

Það er þó engin ástæða til að örvænta því Hobro er enn langneðst með fjórtán stigum minna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×