Fótbolti

Rapid Vín með tilboð í Arnór Ingva og hann vill fara

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Ingvi Traustason er líklega á leið til austurríkis.
Arnór Ingvi Traustason er líklega á leið til austurríkis. vísir/getty
Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í fótbolta, gæti verið á leið til austurríska liðsins Rapid Vín frá Svíþjóðarmeisturum IFK Norrköping.

Fótbolti.net greindi frá því í gær að austurríska liðið er búið að bjóða Norrköping 2,3 milljónir evra eða um 323 milljónir íslenskra króna í Arnór Ingva.

Í viðtali við Expressen í Svíþjóð viðurkennir Arnór Ingvi áhuga austurríska liðsins og segist vilja komast þangað í sumar þegar félagaskiptaglugginn opnar.

„Ég vil komast þangað. Þetta er gott skref fyrir mig að taka í sumar. Ég tel þetta vera gott því þetta er lið sem er í Evrópudeildinni eða Meistaradeildinni á hverju ári í austurrísku deildinni og það er að byggja nýjan völl,“ segir Arnór Ingvi.

Njarðvíkingurinn er búinn að vera einn albesti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinar undanfarið ár en hann skoraði sjö mörk af miðjunni í fyrra þegar Norrköping tryggði sér titilinn.

Hann er sama og búinn að festa sér sæti í landsliðshópnum sem fer til Frakklands og hefur byrjað nýja leiktíð í sænsku úrvalsdeildinni vel þar sem er búinn að skora eitt mark og lagt upp önnur þrjú í fyrstu sex umferðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×