Körfubolti

Þristaregn hjá Cleveland | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cleveland Cavaliers er komið í 2-0 í einvígi sínu gegn Atlanta Hawks í undanúrslitum austurdeildar NBA-körfuboltans eftir 124-98 sigur í öðrum leik liðanna í nótt.

Þegar talað er um þriggja stiga regn og met sett fyrir utan þriggja stiga línuna er liðið sem um ræðir oftast Golden State Warriors. En í nótt var það Cleveland sem átti sviðið þegar kom að þristaregni.

Leikmenn Cleveland skoruðu samtals úr 25 af 45 þriggja stiga tilraunum sínum og skoruðu 75 stig fyrir utan línuna. Þetta er met í deildinni en ekkert lið hefur áður skorað 25 þriggja stiga körfur í einum og sama leiknum hvort sem um ræðir úrslitakeppnina eða deildarkeppnina.

LeBron James var stigahæstur Cleveland með 27 stig en hann skoraði fjóra þrista. J.R. Smith skoraði sjö þriggja stiga körfur í leiknum, þar af sex í fyrri hálfleik en staðan eftir hann var 74-38 fyrir heimamenn.

Fyrra metið áttu lið Orlando og Houston sem skoruðu úr 23 þriggja stiga körfum. Liðin mætast næst í Atlanta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×