Enski boltinn

Zieler vill snúa aftur á Old Trafford og taka við af De Gea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Þýski markvörðurinn Rob-Robert Zieler myndi glaður ganga aftur í raðir Manchester United og verja mark liðsins í ensku úrvalsdeildini ef honum byðist það.

Zieler, sem er 27 ára í dag, kom 19 ára til Manchester United og spilaði með unglingaliðum og varaliði félagsins í fimm ár. Hann fékk aldrei tækifæri með aðalliðinu og fór til Hannover 96 árið 2010.

Zieler hefur verið aðalmarkvörður Hannover í þýsku 1. deildinni undanfarin sex ár og spilað hvern einasta leik. Hann er fastamaður í þýska landsliðshópnum og var í heimsmeistaraliðinu í Brasilíu árið 2014.

Hannover féll úr þýsku 1. deildinni í sumar og ætlar Zieler ekki að taka slaginn með liðinu í næst efstu deild. Fari svo að David De Gea yfirgefi Manchester United í sumar eins og til stóð í fyrra er þýski markvörðurinn opinn fyrir því að snúa aftur á Old Trafford.

„Það var alveg magnað að vera hjá Manchester United fyrst undir stjórn Sir Alex. Maður sá ekkert nema heimsfræga leikmenn á æfingum. Fyrstu vikurnar voru mikið ævintýri en svo vandist maður þessu,“ segir Zieler í viðtali við Goal.com.

„Dvölin hjá Manchester United gerið mikið fyrir mig sem leikmann og persónu. Ég get svo sannarlega sagt að ég væri tilbúinn að fara þangað aftur. Framtíð mín er samt óraðin. Ég er með nokkur tilboð og á eftir að ákveða mig,“ segir Ron Robert-Zieler.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×