Verstappen er 18 ára og 227 daga gamall og hann er þar með yngsti ökumaðurinn til að vinna Formúlu 1 kappakstur. Það er sérstaklega sætt fyrir Verstappen eftir allt það drama sem gengið hafði á hjá Verstappen og Kvyat í vikunni eftir að Kvyat var færður til Toro Rosso til að gera pláss hjá Red Bull fyrir Verstappen.
Nico Rosberg stal fyrsta sætinu af Lewis Hamilton á ráskaflanum og inn í fyrstu beygju. Hamilton ætlaði að svara fyrir sig en það endaði með ósköpum. Árekstur Mercedes manna batt enda á keppni þeirra beggja.
Sjá einnig: Myndband af árekstri Mercedes.
Ricciardo tók við forystunni þegar Mercedes ökumenn voru úr leik. Max Verstappen leiddi keppnina um tíma og var þar með yngsti ökumaðurinn til að leiða Formúlu 1 kappakstur.
Ferrari hófst svo handa við að elta Red Bull sem voru í forystu. Vettel gerði harða atlögu að Verstappen.
Eldur kom upp í bíl Nico Hulkenberg á hring 23. Hann datt því úr leik og þurfti sjálfur að brúka slökkvitækið til að slökkva eldin í bíl sínum. Brautarstarfsmenn voru ekki alveg með á nótunum þegar Hulkenberg nam staðar fyrir framan þá.

Ricciardo kom inn í sitt annað þjónustuhlé á hring 28 og setti mjúk dekk undir. Vettel fylgdi svo í kjölfarið á næsta hring.
Verstappen tók þjónustuhlé á hring 34 og Kimi Raikkonen kom á þjónustusvæðið á næsta hring.
Vettel tók þjónustuhlé á hring 37, einungis átta hringjum eftir að hann setti mjúku dekkin undir. Vettel kom út í fjórða sæti og hóf að elta Raikkonen, Verstappen og Ricciardo. Ricciardo átti eftir að taka eitt þjónustuhlé og hann var að tapa miklum tíma.
Ricciardo kom inn á 44 hring og setti milli-hörð dekk undir. Hann kom út á brautina í fjórða sæti og Verstappen leiddi þá. Raikkonen var annar, rétt um sekúndu á eftir Verstappen og Vettel þriðji, um sjös sekúndum á eftir Raikkonen. Annað eins bil var svo í Ricciardo.
Heimamaðurinn Fernando Alonso á McLaren missti afl á hring 48. Hann var úr leik annað árið í röð í spænska kappakstrinum.
Slagurinn á milli Raikkonen og Verstappen var ógnar spennandi. Bilið rokkaði á milli þess að vera ein sekúdnda niður í að vera hálf sekúnda. Raikkonen elti unga Hollendinginn hring eftir hring.