Körfubolti

Svo létt hjá Cleveland að LeBron spilaði ekki fjórða leikhluta | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cleveland Cavaliers er aftur komið í forystu í einvíginu gegn Toronto Raptors í úrslitum austurdeildar NBA eftir stórsigur á heimavelli sínum í leik fimm í nótt, 116-78.

Cleveland vann fyrstu tvo leikina í rimmunni á heimavelli en tapaði svo tveimur í röð í Toronto. Í nótt átti Toronto aldrei séns en Cleveland var 34 stigum yfir í hálfleik og náði mest 43 stiga forskoti.

Þetta var svo auðvelt fyrir Cavaliers að LeBron James þurfti ekki einu sinni að spila fjórða leikhlutann. Þrátt fyrir það skoraði hann 23 stig, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Hann og Kevin Love voru eitraðir í sóknarleiknum en Love skoraði 25 stig og byrjaði leikinn með að hitta úr fjórum fyrstu skotunum sínum. Kyrie Irving lét ekki sitt eftir liggja og skoraði 23 stig.

Allt var í baklás hjá Toronto þar sem bakvarðaparið magnaða Kyle Lowry og DeMar DeRozan skoraði mest allra en þó bara 27 stig samalagt. DeRozan setti fjórtán stig og Lowry þrettán stig.

Næsti leikur fer fram í Toronto en þar getur Cleveland tryggt sér sigur í einvíginu og komist öðru sinni í röð í lokaúrslitin.

Í spilaranum hér að ofan má sjá það helsta úr leiknum og hér að neðan er svo farið í gegnum leikinn í draugsýn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×