Fótbolti

Matthías skoraði í bikarsigri Rosenborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson í leik með Rosenborg.
Matthías Vilhjálmsson í leik með Rosenborg. Vísir/Getty
Matthías Vilhjálmsson er að standa sig vel hjá norska félaginu Rosenborg en hann var aftur á skotskónum í kvöld.

Rosenborg vann þá 3-1 heimasigur á C-deildarliði Nest-Sotra í sextán liða úrslitum norsku bikarkeppninnar og er eitt af fimm Íslendingaliðum sem eru komin áfram í átta liða úrslitin.

Matthías Vilhjálmsson kom Rosenborg yfir í 2-1 í leiknum strax á 9. mínútu og aðeins tveimur mínútum eftir að leikmaður Rosenborg hafði orðið fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn fyrir Rosenborg en landi hans Guðmundur Þórarinsson var tekinn af velli á 63. mínútu. Hólmar Örn Eyjólfsson var hinsvegar hvíldur en hann var ónotaður varamaður.

Fredrik Midtsjø kom Rosenborg í 1-0 á 6. mínútu en aðeins mínútu síðar sendi Erlend Dahl Reitan boltann í eigið mark og jafnaði metin fyrir Nest-Sotra.

Matthías Vilhjálmsson skoraði markið sitt með hnitmiðuðu skoti af um 18 metra færi en hann hafði þá fengið boltann frá umræddum Fredrik Midtsjø.

Það stefndi í það að mark Matthíasar myndir skilja á milli liðanna en Pål André Helland skoraði síðan þriðja markið á lokamínútu leiksins.

Matthías Vilhjálmsson hefur þar með skorað 4 mörk á tímabilinu en hann er kominn með þrjú mörk í norsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×