Fresta verður hnefaleikabardaga þeirra Tysons Fury og Wladimirs Klitschko vegna meiðsla þess fyrrnefnda.
Fury greindi frá því á Instragram-síðu sinni að hann hefði meiðst á ökkla þegar hann var úti að hlaupa. Um slæma tognun er að ræða.
Fury og Klitschko áttu að mætast í Manchester 9. júlí næstkomandi en ljóst er að seinka þarf bardaganum. Ný dagsetning liggur ekki fyrir.
Fury sigraði Klitschko þegar þeir mættust í Düsseldorf í nóvember í fyrra en það var fyrsta tap Úkraínumannsins í 11 ár. Fury er ósigraður í 25 bardögum á ferlinum.
Fury og Klitschko eru litlir vinir og nú síðast sendi sá síðarnefndi Fury tóninn og sagði hann hafa minnt sig á sjálfan Adolf Hitler með ummælum sínum um gyðinga.
