Fótbolti

Hannes lagði upp mark í fyrsta leiknum eftir EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes og félagar unnu góðan útisigur í dag.
Hannes og félagar unnu góðan útisigur í dag. vísir/vilhelm
Hannes Þór Halldórsson stóð í marki Bodö/Glimt þegar liðið sótti Start heim í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Þetta var fyrsti leikur Hannesar eftir EM í Frakklandi og hann stóð heldur betur fyrir sínu og lagði upp fyrsta mark Bodö/Glimt í 1-4 sigri á útivelli.

Hannes og félagar eru í 12. sæti deildarinnar með 15 stig, fjórum stigum frá fallsæti. Start vermir hins vegar botnsætið með aðeins sex stig.

Bodö/Glimt náði forystunni á 32. mínútu í leiknum í dag. Hannes átti þá langa sendingu fram völlinn á Tond Olsen sem skoraði.

Staðan var 0-1 í hálfleik en á 57. mínútu kom Chidiebere Nwakali boltanum framhjá Hannesi og jafnaði metin.

Bæði lið fengu færi til skora eftir jöfnunarmarkið en það voru gestirnir sem reyndust sterkari á lokasprettinum.

Henrik Furebotn kom Bodö/Glimt yfir á 68. mínútu og Fitim Azemi og Jens Hauge bættu svo tveimur mörkum við í uppbótartíma. Lokatölur 1-4, Bodö/Glimt í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×