Viðskipti innlent

Ferðamenn með minna á milli handanna nú

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Stór hluti þeirra verslana sem hafa verið opnaðar í miðbænum á undanförnum misserum er minjagripaverslanir.
Stór hluti þeirra verslana sem hafa verið opnaðar í miðbænum á undanförnum misserum er minjagripaverslanir. vísir/eyþór
Taxfree-velta ferðamanna hefur aukist um þrjú prósent á árinu miðað við sama tímabil í fyrra, að sögn Helga Jónssonar, framkvæmdastjóra Global Blue á Íslandi. Fyrirtækið endurgreiðir virðisaukaskatt af vörum sem erlendir ferðamenn kaupa hér á landi. Til þess að fá endurgreiðslu þurfa ferðamenn að hafa verslað fyrir að minnsta kosti sex þúsund krónur.

„Aukning taxfree-veltunnar er töluvert undir þeirri aukningu sem hefur verið í komu ferðamanna til landsins. Helstu ástæðurnar eru þær að gengi krónunnar hefur verið að styrkjast gagnvart helstu gjaldmiðlum sem hefur bein áhrif á kauphegðun ferðamanna. Auk þess hefur fastur kostnaður ferðamanna verið að hækka, til dæmis ferðakostnaður til og frá landinu, ferðakostnaður innanlands, gisting, matur og afþreying. Allt kemur þetta niður á verslun ferðamanna sem þannig hafa minna á milli handanna,“ tekur framkvæmdastjórinn fram.

Að sögn Helga hafa Bandaríkjamenn í gegnum árin alltaf skipað sér í eitt af þremur efstu sætum þeirra þjóða sem versla mest. „Verslun Kanadamanna hefur aukist gríðarlega það sem af er ári. Við sjáum hins vegar minnkun á meðal Norðmanna, Rússa og á meðal Breta eftir Brexit þrátt fyrir aukinn fjölda ferðamanna frá þessum stöðum. Nú þegar eru farin að sjást merki þess að breska pundið hefur lækkað um 12,5 prósent á síðustu tveimur vikum.“

Ferðamenn eyða mismiklu hér á landi.
Helgi getur þess að meðalfærslur Rússa séu 34.500 krónur þrátt fyrir fallandi gengi rúblunnar. „Það má þess vegna leiða líkur að því að þeir Rússar sem sækja landið heim séu efnaðir.“

Spurður um hvað ferðamenn kaupi helst segir hann skiptinguna misjafna. „Þótt íslenska ullin, útivistarfatnaður og íslenskt handverk skipi stóran sess þá er það nú svo að ferðamenn sækjast líka eftir merkjavöru, íslensku skarti og úrum ásamt bókum enda mikil gróska á öllum þessum sviðum. En það má búast við að einsleitni markaðarins sé farin að segja til sín með öllum þeim fjölda verslana sem hafa verið opnaðar að undanförnu. Stór hluti þeirra verslana sem hafa verið opnaðar í miðbænum á undanförnum misserum er minjagripaverslanir og það stuðlar að eins­leitninni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×