Ástralar eru sérstaklega óánægðir og segja klósettin stífluð í íbúðum íþróttamannanna og þá leka pípur og berir rafmagnsvírar sjást hér og þar.
Borgarstjóranum í Ríó var ekkert skemmt yfir þessu „væli“ Ástrala og sagði ekki bara að Ólympíuþorp Brasilíumanna væri fallegra en þorpið í Sydney árið 2000, heldur ætlaði hann að setja kengúru fyrir utan hjá þeim svo liði eins og heima hjá sér.
Bandaríska dýfingakonan Abby Johnston, sem vann til silfurverðlauna í samhæfðum dýfingum af þriggja metra palli í London fyrir fjórum árum, er líka ósátt en hennar vandamál tengist ekki húsnæðinu í þorpinu.
Want to know the worst thing about the Olympic village? No @PokemonGoApp. Otherwise, it's incredible.
— Abby Johnston (@AbbyLJohnston) July 26, 2016
Þó Brasilíumenn og mótshaldarar í Ríó þurfi, að því virðist, að hysja upp um sig brækurnar þegar kemur að húsasmíðinni er ekki hægt að kenna þeim um Pokémon-leysið í þorpinu.
Brasilía er nefnilega eitt þeirra landa sem getur ekki enn náð í Pokémon Go smáforritið. Kannski drífur Nintendo sig í að opna það fyrir brasilískan markað þar sem Ólympíuleikarnir hefjast í Ríó 5. ágúst. Eitthvað þurfa íþróttamennirnir nú að gera í frítíma sínum.