Sport

Bætti sautján ára heimsmet Michael Johnson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayde van Niekerk við hlið töflu sem sýnir nýtt heimsmet hans.
Wayde van Niekerk við hlið töflu sem sýnir nýtt heimsmet hans. Vísir/Getty
Suður-Afríkumaðurinn Wayde van Niekerk tryggði sér í nótt sigur í 400 metra hlaupi karla á Ólympíuleikunum í Ríó en hann vann úrslitahlaupið með sannfærandi hætti og á nýju heimsmeti.

Wayde van Niekerk kom í mark á 43,03 sekúndum og bætti heimsmet Bandaríkjamannsins Michael Johnson en það var síðan 1999 og því næstum því orðið 17 ára gamalt. Michael Johnson hljóp á 43,18 sekúndum í Sevilla 26. ágúst 1999.

„Ég trúði því að ég sæti slegið heimsmetið. Ég er búinn að dreyma um þessa gullmedalíu svo lengi," sagði Wayde van Niekerk eftir hlaupið.

Kirani James frá Grenada fékk silfrið og LaShawn Merritt frá Bandaríkjunum tók bronsið. Wayde van Niekerk var 73 hundraðshlutum á undan Kirani James.

Wayde van Niekerk fylgdi því eftir sigri sínum á HM í Peking í fyrra með því að vinna Ólympíugullið. Hann er 24 ára gamall og var á sínum tíma fyrsti Afríkumaðurinn til að hlaupa 100 metrana undir 10 sekúndum, 200 metrana undir 20 sekúndum og 400 metrana undir 44 sekúndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×