Yfirvöld í Nepal hafa sett tvo lögreglumann, sem héldu því fram að þau væru fyrsta indverska parið til að klífa Everest, í tíu ára fjallaklifursbann. Rannsókn yfirvalda hefur leitt í ljós að ljósmyndir sem sýna áttu parið á tindi fjallsins voru falsaðar. Banninu er ætlað að koma í veg fyrir að aðrir fjallgöngumenn falsi afrek sín. Margir þeirra sem klifið hafa Everest hafa í kjölfarið notið velgengni sem fyrirlesarar og rithöfundar.
Yfirmaður ferðamáladeildar Nepal, Sudarshan Prasad Dhakal sagði í samtali við AFP að greining á ljósmyndum parsins sýni að þau höfðu sett sig og fána sinn inn á myndir sem teknar voru af öðrum fjallgöngumanni sem klifið hefur Everest.
Satyaru Sidhantha, hefur nú stigið fram og sagt að myndirnar sem hjónin höfðu lagt fram til sönnunar væru í hans eigu. Þetta kemur fram á vef BBC.
„Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá útskýringar frá þeim hafa þau ekki verið samvinnufús við rannsóknina,“ sagði Dhakal.
Dinesh og Tarakeshwari Rathod, sem vinna sem lögregluþjónar í Pune borg á Indlandi, héldu því fram að þua hafi klifið Everest í maí síðastliðnum. Í júlí höfðu þau, ásamt fylgdarliði sínu, hafnað ásökunum um að hafa falsað myndirnar.
Þá var einnig misræmi í dagsetningum sem hjónin gáfu upp. Ekki er talið að þau hafi getað náð tindi fjallsins eins fljótt og þau héldu fram, ásamt því að á myndunum sjást þau klæðast mismunandi skóm.

