Körfubolti

Barkley óhlýðnaðist lækninum sínum og heimsótti dauðvona Sager

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sager flottur í tauinu að vanda.
Sager flottur í tauinu að vanda. vísir/getty
Körfuboltagoðsögnin Charles Barkley óhlýðnaðist lækninum sínum þegar hann fór til Houston að heimsækja sjónvarpsmanninn Craig Sager á dögunum.

Hinn 65 ára gamli Sager hefur barist við hvítblæði undanfarin tvö ár og í gær fór hann í sína þriðju mergígræðslu.

Fjölskylda Sagers hefur staðið þétt við bakið á honum en í vikunni kvefaðist eiginkona hans og í kjölfarið var hún send heim til að koma í veg fyrir að hún smitaði Sager.

Barkley barst þetta til eyrna og flaug strax til Houston til að heimsækja samstarfsfélaga sinn hjá TNT sjónvarpsstöðinni.

Læknir Barkleys var lítt hrifinn af þessu uppátæki hans en innan við mánuður er síðan Barkley gekkst undir aðgerð á mjöðm. Þrátt fyrir að hafa ekki fengið fararleyfi lét Barkley ekki segjast og flaug til Houston til að hitta Sager.

„Craig Sager er ein áhugaverðasta manneskja sem ég hef komist í kynni við,“ sagði Barkley sem hrósaði Sager fyrir jákvætt hugarfar í veikindum sínum.

Læknar tjáðu Sager í mars að hann ætti aðeins 3-6 mánuði eftir ólifaða. Hálfu ári síðar er hann enn lifandi.

Sager hefur starfað sem íþróttafréttamaður frá árinu 1972. Hann er þekktur fyrir litríkan klæðaburð og skemmtileg viðtöl á hliðarlínunni í leikjum í NBA-deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×