Fótbolti

Neuer tekur við fyrirliðabandinu af Schweinsteiger

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neuer lék sinn 71. A-landsleik í gær.
Neuer lék sinn 71. A-landsleik í gær. vísir/getty
Manuel Neuer hefur verið útnefndur nýr fyrirliði þýska landsliðsins í fótbolta.

Neuer tekur við fyrirliðabandinu af Bastian Schweinsteiger sem lék sinn síðasta landsleik í gær.

Neuer lék sinn 71. A-landsleik þegar Þjóðverjar unnu 2-0 sigur á Finnum í vináttulandsleik í Mönchengladbach í gær.

Hinn þrítugi Neuer lék sinn fyrsta landsleik 2009 en hann hefur verið aðalmarkvörður þýska liðsins frá HM 2010.

Neuer hefur varið mark Þýskalands á fjórum stórmótum en þýska liðið komst í undanúrslit á þeim öllum. Neuer var frábær á HM 2014 þar sem Þjóðverjar stóðu uppi sem sigurvegarar. Hann var valinn besti markvörður mótsins og í úrvalslið þess.

Neuer er annar markvörðurinn sem ber fyrirliðabandið hjá þýska landsliðinu eftir fall Berlínarmúrsins. Hinn er Oliver Kahn sem var fyrirliði Þýskalands á árunum 2001-04.

Neuer leiðir þýska liðið í fyrsta sinn inn á völlinn þegar það mætir Noregi í undankeppni HM 2018 á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×