Innlent

Lilja ræddi við Ban Ki-moon á kóresku

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, funduðu.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, funduðu. Mynd/utanríkisráðuneytið

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna ræddu meðal annars jafnréttismál, stöðu flóttamanna og umhverfismál á fundi sínum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York síðdegis í gær.



Umræður á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefjast á morgun.



Á Facebook-síðu Lilju segir að hún hafi ekki staðist mátið og ræddi aðeins við hann á kóresku áður en skipt var yfir á ensku, en Lilja hefur áður búið í Suður-Kóreu, þaðan sem aðalritarinn kemur.



Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins segir að Ban Ki-moon hafi fært Íslendingum sérstakar þakkir fyrir að tala fyrir jafnréttismálum og leggja Sameinuðu þjóðunum lið í því mikilvæga verkefni.



„Lilja upplýsti hann um þingsályktunartillögur um fullgildingu Íslands á Parísarsamkomulaginu og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hún lagði fyrir Alþingi fyrr í mánuðinum. Báðar tillögurnar verða teknar til síðari umræðu á Alþingi í dag.



Þá ræddu þau norðurslóðamál og loftslagsmál sem Ban Ki-moon hefur látið sig miklu varða. Þau verða meðal þess sem rætt verður á Hringborði Norðurslóða í byrjun október í Reykjavík en framkvæmdastjórinn er væntanlegur til Íslands, m.a. til að taka þátt í því,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×