Íslenski boltinn

Heimir: Við þurfum að sækja þennan titil

Smári Jökull Jónsson skrifar
Heimir og félagar eru í afar góðri stöðu á toppi Pepsi-deildarinnar.
Heimir og félagar eru í afar góðri stöðu á toppi Pepsi-deildarinnar. vísir/ernir
Heimir Guðjónsson þjálfari FH sagði að jafntefli hefðu verið nokkuð sanngjörn úrslit í leik FH-inga og Breiðabliks í Kaplakrika í kvöld. Eftir leikinn eru Hafnfirðingar með 7 stiga forystu á toppi Pepsi-deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir.

„Miðað við hvernig leikurinn þróaðist þá held ég að við getum verið sáttir. Við vorum ekki góðir í fyrri hálfleik og þeir settu á okkur pressu. Við vorum búnir að æfa hana vel í vikunni en við vorum alltof staðir og ekki að finna þær lausnir sem við vorum búnir að leggja upp með fyrir leikinn,“ sagði Heimir í samtali við Vísi að leik loknum.

„Í seinni hálfleik þá fannst mér við vera sterkari, sérstaklega þegar leið á hálfleikinn. Við fengum ágætis möguleika til að setja þetta annað mark. En jafntefli eru líklega sanngjörn úrslit.“

Jafntefli eru ágæt úrslit fyrir FH sem komu þar með í veg fyrir að Breiðablik næði að minnka forystu liðsins á toppnum. Í fyrri hálfleik leit út fyrir að heimamenn leggðu fyrst og fremst áherslu á að verja stigið.

„Nei, það var ekki planið. Við vitum það að við þurfum að sækja þennan titil, hann er ekki að fara að detta í hendurnar á okkur. Það er alltaf þannig að þegar þú ert að sækja titla þá viltu vinna leiki. Við lögðum upp með það í dag að vinna þennan leik,“ sagði Heimir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×