Körfubolti

Einn besti leikmaður NBA-deildarinnar ekki hættur að stækka

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Davis vill ekki vera hærri en 2,08 metrar.
Davis vill ekki vera hærri en 2,08 metrar. vísir/getty
Þótt Anthony Davis, leikmaður New Orleans Pelicans, sé 23 ára gamall og búinn að spila fjögur tímabil í NBA-deildinni er hann ekki hættur að stækka.

Síðan Davis kom inn í NBA 2012 hefur hann verið skráður 2,08 metrar á hæð, eða sex fet og 10 þumlungar.

Leikmenn New Orleans voru mældir í síðustu viku og þá kom í ljós að það hefur tognað úr Davis. Leikmaðurinn hefur stækkað um einn þumlung frá síðustu mælingu, eða rúma 2,5 sentimetra.

Davis hefur hins vegar engan áhuga á að vera stærri og lítur enn svo á að hann sé 2,08 metrar á hæð.

„Þetta er fullkomin hæð fyrir mig. Hitt hljómar ekki jafn vel; 2,08 metrar er fullkomið fyrir mig og ég mun alltaf segja að það sé mín rétta hæð,“ sagði Davis sem er einnig þyngri en hann var á síðasta tímabili.

Davis er að hefja sitt fimmta tímabil í NBA. Hann var valinn nýliði ársins 2013 og hefur þrisvar sinnum verið valinn í stjörnuliðið. Þá var hann í fyrsta úrvalsliði NBA 2015.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×