Innlent

Framsóknarstimpillinn hvarf úr sendiráðinu í Kaupmannahöfn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins vonar eflaust að flokkurinn hafi ekki orðið af neinum atkvæðum vegna horfna stimpilsins í Köben.
Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins vonar eflaust að flokkurinn hafi ekki orðið af neinum atkvæðum vegna horfna stimpilsins í Köben. vísir/anton brink
Stimpill Framsóknarflokksins sem notaður er í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn er horfinn. Ekki er vitað hvenær stimpillinn hvarf en að sögn Urðar Gunnarsdóttur upplýsingafulltrúar utanríkisráðuneytisins uppgötvaðist það í morgun að stimpillinn væri horfinn.

 

„Hann bara hvarf,“ segir Urður í samtali við Vísi. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir þingkosningarnar sem fara fram þann 29. október næstkomandi hófst 22. september síðastliðinn.

Urður segir við að þegar það uppgötvaðist að stimpill Framsóknar væri horfinn hafi stimplar annarra stjórnmálaflokka verið fjarlægðir og kjósendur sem hafi komið í dag hafi því fengið kjörseðil þar sem þeir þurftu að skrifa listabókstafinn með penna.

Aðspurð segir Urður að nýr stimpill komi væntanlega til Kaupmannahafnar strax á morgun. Hvort að einhver hafi stolið stimpli Framsóknar er ekki gott að segja þó það megi ef til vill teljast líklegra en það að einhver hafi tekið hann í misgripum í kjörklefanum.

Þá er ólíklegt að það komi einhvern tímann í ljós hvernig stimpillinn hvarf þar sem það eru auðvitað engar eftirlitsmyndavélar í kjörklefanum.

Mbl.is greindi fyrst frá málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×