Fótbolti

Hefur komist upp margar brekkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir á leið í aðgerð.
Margrét Lára Viðarsdóttir á leið í aðgerð. vísir/vilhelm
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, hefur glímt við þrálát meiðsli í lærum í tæpan áratug. Hún gekkst undir aðgerð á hægra læri árið 2012 og fer nú í svipaða aðgerð á því vinstra.

„Síðast heppnaðist aðgerðin vel,“ segir Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, en bætir við að aðgerðin sem er fram undan sé minni en sú fyrri.

„Það er þó alltaf áhættusamt að fara í aðgerð og auðvitað höfum við bæði áhyggjur. En hún ætlar sér að komast í toppstand fyrir næsta sumar og það verður bara að koma í ljós hvernig það gengur. Það verður að meta þegar kemur að því að velja hópinn hversu stórt hlutverk hún mun fá. En Margrét Lára hefur komist upp margar brekkur áður og við trúum því að þetta muni allt saman fara vel,“ segir Freyr.

Margrét Lára, sem er markahæsti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi, gat lítið beitt sér á æfingamótinu í Kína á dögunum vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×