Þá hefur flóttaleið ISIS-liða verið lokað.
Búist er við því að stjórnarliðar þurfi að berjast hús úr húsi í borginni þar til vígamenn Íslamska ríkisins hafa verið sigraðir.

Samkvæmt CNN taka nú um hundrað þúsund stjórnarliðar þátt í aðgerðunum í Mosul. Þar á meðal eru hermenn, vopnaðar sveitir frá Íran, vopnaðar sveitir sjíta, Kúrdar og margar aðrar fylkingar. Yfirmenn hersins segja þó að einungis írakar muni fara inn í borgina þar sem íbúar eru súnnítar að miklum meirihluta.
Talið er að um fimm þúsund vígamenn verji Mosul. Abu Bakr al-Baghdadi, æðsti yfirmaður ISIS, sendi frá sér hljóðupptöku í nótt þar sem hann hvatti vígamenn sína til að berjast til hins síðasta.
Blaðamenn AP fréttaveitunnar hafa rætt við íbúa Mosul sem hafa flúið. Þau segjast hafa fengið mismunandi skipanir um hvort þau ættu að flýja eða vera í borginni.
Yfirmenn hersins sem blaðamenn ræddu við að verið væri að skipa fólki að halda kyrru fyrir svo auðveldara væri að bera kennsl á vígamenn ISIS sem hafa falið sig á meðal almennra borgara. Þá búa um milljón manns í borginni og herinn óttast að fá allt þetta fólk á flakk um svæðið.