Fótbolti

Óvissan algjör hjá Alfreð: Gætu verið þrjár vikur eða fjórir mánuðir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Finnbogason fagnar marki í 2-0 sigri á Tyrklandi.
Alfreð Finnbogason fagnar marki í 2-0 sigri á Tyrklandi. vísir/vilhelm
Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji Íslands í fótbolta, veit ekkert hvenær hann getur aftur byrjað að spila vegna meiðslanna sem hrjá hann þessar vikurnar og halda honum frá leik strákanna okkar gegn Króatíu í undankeppni HM 2018 á laugardaginn.

Alfreð er búinn að vera með bólgu í lífbeininu sem leiðir inni í nárann í nokkurn tíma en í landsleiknum gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í síðasta mánuði varð sársaukinn svo mikill að hann þurfti að fara út af.

Framherjinn magnaði hefur ekki spilað fótboltaleik síðan fyrir félagslið sitt Augsburg í þýsku 1. deildinni og gat ekki verið með íslenska liðinu í síðustu tveimur leikjum ársins gegn Króatíu og Möltu.

„Ég hef verið í meðferð hjá læknaliði Augsburg en það hafa ekki orðið neinar framfarir. Núna er ég heima á Íslandi í frekari meðferð og fer svo aftur út í meðferð eftir helgina,“ segir Alfreð í viðtali við Morgunblaðið.

Það sem Alfreð finnst verst er að hann getur ekki neglt neina tímasetningu á endurkomu því er alls óvíst er hvenær hann getur byrjað að spila aftur.

„Ég veit ekki hvort þetta verða þrjár vikur til viðbótar eða fjórir mánuðir. Það er það versta, að vita ekki hvenær ég get byrjað,“ segir Alfreð Finnbogason.

Fjarvera Alfreð er mikill skellur fyrir strákana okkar en hann hefur spilað frábærlega í fyrstu þremur leikjum undankeppninnar og skorað í þeim öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×