Fótbolti

Klinsmann-ævintýrið kostaði Bandaríkjamenn meira en tvo milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klinsmann og Aron Jóhannsson.
Jürgen Klinsmann og Aron Jóhannsson. Vísir/Getty
Jürgen Klinsmann hefur stýrt sínum síðasta leik hjá bandaríska landsliðinu. Endalok hans voru að tapa tveimur fyrstu leikjum sínum í úrslitariðlinum í undankeppni HM 2018.

Maðurinn sem sannfærði Aron Jóhannsson um að spila frekar fyrir bandaríska landsliðið en það íslenska, var eins og koma fram áður á Vísi, látinn taka pokann sinn í gær.

Klinsmann-ævintýrið kostaði bandaríska knattspyrnusambandið tuttugu milljónir dollara eða 2,2 milljarða íslenskra króna.

Jürgen Klinsmann var með samning fram yfir HM 2018 eftir að hafa fengið nýjan fjögurra ára samning eftir síðustu heimsmeistarakeppni.

Hann var að fá 3,2 milljón dollara í árslaun í nýja samningnum samkvæmt fréttum bandarískra miðla en hafði verið tíundi launahæsti þjálfarinn á HM í Brasilíu 2014.

Klinsmann tók við liðinu árið 2011 og stýrði liðinu í alls 98 leikjum. Bandaríkjamenn unnu 55 þeirra.

Það sá enginn þessi svörtu endalok fyrir árið 2013 þegar hann stýrði bandaríska liðinu til sigurs í tólf leikjum í röð. Í þeim síðasta spilaði Aron Jóhannsson sinn fyrsta landsleik fyrir Bandaríkin.

Hvort að nýr landsliðsþjálfari hafi trú á Aroni verður að koma í ljós. Verði Aron settur út í kuldann af nýjum þjálfara þá getur hann þó ekki komið inn í íslenska landsliðið. Hann lokaði þeim dyrum um leið og hann spilaði keppnisleik fyrir bandaríska landsliðið.


Tengdar fréttir

Klinsmann hjálpaði Aroni í gegnum meiðslin

Þjóðverjinn sendi Aron Jóhannsson til sérfræðinga sem hann þekkir í München en Aron býst við að vera í næsta landsliðshópi Bandaríkjanna eftir endurkomuna.

Klinsmann rekinn

Jürgen Klinsmann hefur verið rekinn úr starfi þjálfara bandaríska karlalandsliðsins í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×