Enski boltinn

Southgate fékk starfið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Southgate stýrir enska landsliðinu næstu fjögur árin.
Southgate stýrir enska landsliðinu næstu fjögur árin. vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið staðfesti nú rétt í þessu að Gareth Southgate hafi verið ráðinn þjálfari enska landsliðsins til næstu fjögurra ára.

Southgate tók við enska landsliðinu til bráðabirgða eftir að Sam Allardyce sagði af sér í haust. Hann stýrði enska liðinu í síðustu fjórum leikjum þess á árinu. England vann tvo af þessum leikjum og gerði tvö jafntefli.

„Ég er gríðarlega stoltur að hafa verið ráðinn landsliðsþjálfari. En ég veit að það er eitt að fá starfið, annað að ná árangri,“ sagði Southgate í fréttatilkynningu frá enska knattspyrnusambandinu.

„Ég naut þess að starfa með leikmönnunum í síðustu fjórum leikjum og það eru tækifæri til að gera vel. Ég er staðráðinn í að gefa þjóðinni landslið sem hún getur verið stolt af og nýtur þess að horfa á og vaxa. Vinnan hefst núna.“

Southgate, sem er 46 ára, lék 57 landsleiki og skoraði tvö mörk á árunum 1995-2004.

Hann hóf ferilinn með Crystal Palace en lék einnig með Aston Villa og Middlesbrough. Hann tók við síðastnefnda liðinu eftir að hann lagði skóna á hilluna 2006.

Southgate stýrði Boro í þrjú ár en var rekinn í október 2009. Hann tók við U-21 árs landsliði Englands 2013 og stýrði því þangað til hann tók við A-landsliðinu.

Næsti leikur enska landsliðsins er vináttulandsleikur gegn Þýskalandi í Dortmund 22. mars 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×