Körfubolti

Curry gæti orðið sá fyrsti sem fær 200 milljóna dollara samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry hjá Golden State Warriors hefur verið kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin tvö tímabil en hann er hvergi nærri því að vera launahæsti leikmaður síns liðs hvað þá allrar NBA-deildarinnar.

Stephen Curry skrifaði undir síðasta samning sinn árið 2012 en hann var þá að glíma við langvinn ökklameiðsli og á þeim tíma var ekkert öruggt hvort hann gæti hreinlega losnað við ökklavandræðin.  Hann gerði gott betur því hann blómstraði sem besti leikmaður deildarinnar í besta liðinu.

Eigendur og leikmannasamtök NBA-deildarinnar eru að ganga frá nýjum samningi þessa dagana og sá samningur mun gefa félögum tækifæri til að launa sínum mönnum sérstaklega vel fyrir hollustu gagnvart sínu félagi.

Curry er að fá alltof lítinn pening fyrir vinnu sína í dag miðað við hvað aðrir leikmenn eru að fá en ESPN hefur heimildir fyrir því að nú verði stór breyting á því þegar Curry framlengir samning sinn við Golden State Warriors næsta sumar.

ESPN hefur heimildir fyrir því að Stephen Curry muni fá yfir 200 milljónir dollara fyrir næsta samning sinn eða um 23 milljarða íslenskra króna. Samningurinn mun ná þá frá 2017 til 2022.

Curry fær um tólf milljónir dollara fyrir þetta tímabil eða 1,3 milljarða íslenskra króna. Laun hans munu hækka upp í 36 milljónir dollara á næsta tímabili sem er þreföldun enda á ferðinni rúmlega fjórir milljarðar íslenskra króna.  

Curry mun síðan hækka í launum á hverju ári og hann mun fá alls 47 milljónir dollara fyrir lokatímabil samningsins sem er 2021-22.  47 milljónir dollara eru tæplega 5,4 milljarðar talið í íslenskum krónum.

Stephen Curry hefur spilað allan sinn feril með Golden State Warriors en þeir leikmenn sem eru að semja við sitt félag eiga rétt á mun hærri samningum undir nýja launaþakinu. Það er komið tími á það að Curry verði einn af launahæstu leikmönnum NBA-deildarinnar og nú lítur út fyrir að hann verði sá launahæsti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×