Nico Hulkenberg býst ekki við kraftaverkum á næsta ári hjá Renault liðinu. Hulkenberg er að koma til Renault frá Force India.
Renault átti erfitt tímabil í ár sem var fyrsta ár Renault eftir að liðið snéri aftur til keppni í Formúlu 1. Hulkenberg segist búast við því að liðið verði áfram í mikilli uppbyggingu á næsta ári og það verði því annað erfitt tímabil.
„Ég held að næsta ár verði enn mikil uppbygging í gangi. Maður verður að vera raunsær, liðið er að ljúka afar erfiðu ári, annað árið í röð,“ sagði Hulkenberg.
„Þegar Renault keypti liðið í fyrra ar það í erfiðri stöðu, sérstaklega í upphafi tímabils, það fór ekki mikil vinna í að þróa bílinn,“ bætti Hulkenberg við.
„Ég vona að næsta ár verði ögn betra en ég býst ekki við að verða í topp sex strax, það verður líklega erfitt að komast í topp 10,“ sagði Hulkenberg að lokum.
Hulkenberg impraði á því að hann væri kominn til að vera hjá Renault. Hann hefur því ekki áhyggjur ef úrslitin sem hann óskar sér koma ekki strax.
