Innlent

Svo gæti farið að kastað verði upp á hver verður formaður KSÍ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni Bergsson og Björn Einarsson vilja verða næsti formaður KSÍ. Úrslitin ráðast á morgun.
Guðni Bergsson og Björn Einarsson vilja verða næsti formaður KSÍ. Úrslitin ráðast á morgun. vísir/anton brink
Mikil spenna ríkir fyrir formannskjör KSÍ sem fram fer á ársþingi sambandsins í Vestmannaeyjum á morgun. Björn Einarsson, formaður Víkings, og Guðni Bergsson, lögfræðingur og fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, bjóða fram krafta sína til starfsins.

Báðir telja sig eiga góða möguleika á að ná kjöri og ekki að ástæðulausu. Afar erfitt er að spá fyrir um hvernig kosningarnar á morgun fara. Stefnir í góða mætingu á ársþingið en 147 þingfulltrúar af 153 hafa boðið komu sína.

Kosningin er leynileg og fer þannig fram, eins og fram kemur í lögum KSÍ, að nýr formaður þarf að hljóta meirihluta greiddra atkvæða til að verða kjörinn formaður. Nái hvorugur meirihluta atkvæða, yfir 50%, skal kosið aftur. Fái formannsefnin jafnmörg atkvæði, sem ólíklegt er en þó vel mögulegt, verður kastað upp á hvor verður formaður.

Þetta má skýra með einföldu dæmi:

140 fulltrúar greiða atkvæði í kosniningunni. 62 kjósa Björn, 58 kjósa Guðna og 20 skila auðu. Björn fær þá 44% atkvæða en Guðni 41% atkvæða. Björn fær þó ekki meirihluta atkvæða svo kjósa þarf aftur.

Í seinni kosningunni fá báðir 69 atkvæði og tveir skila auðu. Aftur er jafnt og þá, skv. grein 15.4 verður varpað hlutkesti. 

Í könnun Fótbolta.net í vikunni um hug þingfulltrúa til formannsefnanna tveggja kom fram að Björn fengi 38% atkvæða, Guðni 33% atkvæða, 29% voru enn óákveðnir og ellefu vildu ekki svara. Nokkrir tóku því fram að afstaða þeirra gæti vel breyst fyrir þingið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×