Skoðun

Lækkum vexti með stöðugleikasjóði

Sigurður Hannesson skrifar
Ef rétt er á málum haldið má lækka vexti með stofnun stöðugleikasjóðs sem hefði sveiflujöfnun hagkerfisins og opinberan sparnað að leiðarljósi.

Útgjöld hins opinbera hafa bein áhrif á vaxtastigið í landinu. Óhóflegur útgjaldavöxtur ríkisins er þensluhvetjandi og kallar á viðbrögð Seðlabankans, sem nýtir stýrivexti til að slá á þenslu. Nú þegar vel árar virðast ríkisstjórn og Seðlabanki ekki ætla að ganga í takt. Í stað þess að draga úr eftirspurn í hagkerfinu, auka aðhald og stefna að myndarlegum rekstrar­afgangi ríkissjóðs er stefnt á 1,5% afgang næstu árin samkvæmt fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Sá litli afgangur heldur vöxtum hærri en ella og leggur þyngri vaxtabyrði en annars væri á fyrirtæki og heimili landsins.

Stöðugleikasjóður ætti að fá framlög með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með stofnframlagi, til dæmis hluta af stöðugleikaframlögum slitabúanna sem nýttur er til kaupa á gjaldeyri af Seðlabankanum. Slíkt myndi létta undir með Seðlabankanum sem ber tugmilljarða kostnað á hverju ári af stórum gjaldeyrisforða. Í annan stað ætti sjóðurinn að fá myndarlegt framlag úr ríkissjóði þegar vel árar eins og nú. Í þriðja lagi ætti að nýta tekjur hins opinbera af nýtingu helstu auðlinda landsins – sjávarútvegi, orkuiðnaði og ferðaþjónustu.

Stöðugleikasjóðurinn ætti að fjárfesta erlendis, enda er sveiflujöfnun eitt af markmiðum hans og ekki ráðlegt að setja öll eggin í sömu efnahagskörfuna. Þegar vel áraði kæmi framlag úr ríkissjóði. Slíkt drægi úr sveiflum og gerði Seðlabankanum kleift að lækka vexti. Þegar verr áraði myndi stöðugleikasjóðurinn fjármagna uppbyggingu innviða innanlands og minnka áhrif af niðursveiflu. Reynslan sýnir að krónan hefur tilhneigingu til að styrkjast smám saman þegar vel árar og veikjast skyndilega við áföll. Stöðugleikasjóður eins og hér er lýst jafnar því gengissveiflur svo fremi sem umgjörð sjóðsins er vönduð og tryggt sé að ekki sé hægt að taka út úr honum nema við fyrirfram tilgreindar aðstæður.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×