Körfubolti

Sá litli nálgast risana Michael Jordan og Kobe Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isaiah Thomas.
Isaiah Thomas. Vísir/Getty
Isaiah Thomas hefur farið á kostum með liði Boston Celtics í NBA-deildinni á þessu tímabili og svo vel að hann nálgast nú tvo af mestu og stöðugust skorurum deildarinnar í gegnum tíðina.

Isaiah Thomas hefur skorað 30,8 stig að meðaltali með Boston Celtics liðinu og er á góðri leið með að bæta met Larry Bird yfir flest stig að meðaltali hjá Boston Celtics á einu tímabili. Enginn leikmaður Boston hefur verið með yfir 30 stig að meðaltali í leik.

Það er þó önnur tölfræði sem hefur komið Isaiah Thomas í hóp með stöðugustu skorunum sem NBA-deildin hefur séð síðan NBA og ABA deildirnar sameinuðust á áttunda áratugnum.

Isaiah Thomas var stigahæstur í 117-104 sigri Boston á Minnesota Timberwolves í nótt en hann skoraði þá 27 stig eða sjö stigum meira en næsti maður.

Þetta var 32. leikurinn í röð sem Isaiah Thomas er stigahæstur hjá Boston-liðinu og aðeins  Michael Jordan og Kobe Bryant hafa verið stigahæstir hjá sínu liði í fleiri leikjum í röð.

Isaiah Thomas er stutt frá því að ná að komast yfir Kobe Bryant og inn á topp tvö listann með sjálfum Michael Jordan. Jordan er reyndar í í nokkrum sér flokki enda með tvo spretti í efstu tveimur sætunum.

Jordan var stigahæstur hjá Chicago Bulls í 66 leikjum í röð 1987-88 tímabilið og í 41 leik í röð tímabilið á undan.

Isaiah Thomas þarf að vera stigahæstur í tveimur leikjum í röð til að jafna Kobe Bryant í þriðja sætinu.  Bryant var stigahæstur í 34 leikjum í röð hjá Los Angeles Lakers tímabilið 2005-06.

Það var margt á móti Isaiah Thomas, hann er aðeins 175 sentímetrar á hæð og var valinn sextugasti í nýliðavalinu 2011. Síðan hefur hann unnið sig upp í að vera einn af bestu leikmönnum deildarinnar.

Lykilatriðið var að komast til Boston Celtics en þar hefur strákurinn sprungið út og er nú á góðri leið með að slá stigamet Larry Bird. Hann hefur þegar tekið önnur met hjá félaginu og þetta tímabil hjá Isaiah Thomas því löngu orðið sögulegt í Boston Garden.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×