Erlent

Brexit: Forsíður bresku blaðanna segja ólíkar sögur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óhætt er að segja bresku blöðin lítu ólíkum augum á Brexit, sem hefst formlega í dag.
Óhætt er að segja bresku blöðin lítu ólíkum augum á Brexit, sem hefst formlega í dag. Vísir.
Bretar hefja í dag formlegt ferli til þess að yfirgefa Evrópusambandið. Óhætt er að segja að dagurinn verði sögulegur og tækla bresku blöðin tíðindin á ólíkan hátt, sé litið til forsíðna helstu dagblaða Bretlands.

Forsíða Guardian hefur vakið mikla athygli í morgunsárið. Þar má sjá pússluspil af Evrópu, nema hvað búið er að taka Bretland út og í stað eyjunnar er fyrirsögn blaðsins: Í dag stígur Bretland inn í óvissuna.

Óhætt er að segja að Daily Mail taki annan snúning á málinu en Guardian. Þar má einfaldlega sjá mynd af Theresu May skrifa undir bréfið sem sendiherra Bretlands gagnvart Evrópusambandinu mun afhenda Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, bréfið á hádegi í dag. Yfir er orðið Freedom, eða frelsi, prentað í stríðsletri. Reikna má með að ritstjórn Daily Mail sé því alsæl með að Bretar séu að yfirgefa ESB.

The Sun sendir nágrönnum Bretlands í Evrópu ákveðin skilaboð. Á forsíðu blaðsins má sjá hvernig búið er að varpa stöfunum Dover and out á Hvítukletta eða White Cliffs of Dover sem standa við Ermasundið og snúa að Frakklandi.

Klettarnir eru taldir táknrænir fyrir varnir Breta og litið er á klettannna sem útvörð Bretlands.

Forsíður The Times og Financial Times eru keimlíkar. The Times minnir á að stundin sem May skrifaði undir bréfið hafi verið söguleg á meðan The Financial Times segir að May hafi opnað á málamiðlanir við ESB.

Daily Mirror og Daily Telegraph nota sömu mynd og The Times og Financial Times á forsíðum blaðanna. Telegraph vitnar í May á forsíðunni þar sem May hvetur Breta til þess að sameinast á bak við Brexit.

Bresk stjórnvöld munu virkja 50. grein Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins, en þá munu tveggja ára viðræður hefjast þar sem samið verður um útgöngu Bretlands. Samkvæmt þessari tímaáælun mun Bretland ganga úr sambandinu í mars 2019.

Um níu mánuðir eru nú liðnir frá því að tæp 52 prósent breskra kjósenda greiddu atkvæði með útgöngu Bretlands úr sambandinu


Tengdar fréttir

Brexit-ferlið hefst formlega 29. mars

Bresk stjórnvöld munu með þessu virkja 50. grein Lissabon-sáttmálana, en þá munu tveggja ára viðræður hefjast þar sem samið verður um útgöngu Bretlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×