Fótbolti

Landsliðsþjálfari Englands gagnrýndur: Kemst í liðið ef þú ert vinsæl hjá honum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark Sampson fer ekki bara eftir frammistöðu leikmanna þegar hann velur í enska landsliðið.
Mark Sampson fer ekki bara eftir frammistöðu leikmanna þegar hann velur í enska landsliðið. vísir/getty
Eniola Aluko, markahæsti leikmaður ensku kvennadeildarinnar í fótbolta á síðasta tímabili, var ekki valin í lokahóp Englands fyrir EM 2017 í sumar. Hún er ósátt við hvernig landsliðsþjálfarann Mark Sampson valdi hópinn.

Aluko skoraði níu mörk í 16 leikjum fyrir Chelsea þegar Lundúnaliðið lenti í 2. sæti í fyrra. Það dugði henni þó ekki til að komast í enska landsliðshópinn fyrir EM sem fer fram í Hollandi í sumar.

Eniola Aluko hefur ekki leikið með enska landsliðinu síðasta árið.vísir/getty
„Ég hef alltaf litið svo á að þú eigir að uppskera eins og þú sáir. Gildi enska landsliðsins eiga að snúast um að leggja hart að sér og uppskera í samræmi við það,“ sagði Aluko sem hefur skorað 32 mörk í 90 landsleikjum.

Sampson segist ekki velja leikmenn eftir því hvernig þeir eru að spila hverju sinni.

„Hann hefur sagt opinberlega að hann velji ekki út frá því hvernig leikmenn eru að spila. Aðrir þættir eins og vinsældir, mikilvægi innan hópsins og persónuleiki skipta máli,“ sagði Aluko.

„Skilaboðin sem er verið að senda er að þú kemst í liðið ef þú ert vinsæl hjá þjálfaranum. Þú þarft ekki að standa þig. Þetta eru hættuleg skilaboð sem er verið að senda, sérstaklega til ungra leikmanna.“

Sampson var ekkert að slóra við að velja lokahópinn en fyrsti leikur Englands á EM er ekki fyrr en 19. júlí. Þá mætir enska liðið því skoska. Spánn og Portúgal eru einnig í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×