Erlent

Uppreisnarmenn FARC vinna með ríkinu að endurbyggingu Mocoa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Átök kólumbíska ríkisins við hópa á borð við FARC hafa staðið yfir frá árinu 1964.
Átök kólumbíska ríkisins við hópa á borð við FARC hafa staðið yfir frá árinu 1964. vísir/afp
Uppreisnarhópurinn FARC bauðst í gær til þess að vinna með kólumbíska ríkinu að endurbyggingu bæjarins Mocoa í suðvesturhluta landsins. Að minnsta kosti 254 fórust, þar af 62 börn, þegar aurskriða féll á bæinn um helgina og er hundruða saknað. Tala látinna gæti því enn hækkað verulega.

Alls unnu rúmlega þúsund her- og lögreglumenn björgunarstarf á vettvangi í gær. Senda þurfti mannskap, búnað og birgðir með þyrlum þar sem þeir vegir sem liggja að Mocoa eru annað hvort ófærir eða ónýtir. Juan Manuel Santos forseti hét því í gær að björgunarmenn myndu hafa hraðar hendur.

Skammt frá Mocoa, í La Carmelita, búa um 400 uppreisnarmenn í búðum. Vegna friðarsamninganna þurfa þeir samþykki ríkisins til þess að yfirgefa búðirnar. Að sögn Ivan Marquez, leiðtoga FARC, vilja flestir þeirra fara til Mocoa að hjálpa til.

Átök kólumbíska ríkisins við hópa á borð við FARC hafa staðið yfir frá árinu 1964. Santos undirritaði hins vegar friðarsamning við FARC á síðasta ári.

„Ég heyri það á samtölum mínum við uppreisnarmenn að þeir vilji fara þangað, til Mocoa, til að vinna og hjálpa til við endurbyggingu,“ sagði Marquez í samtali við El Colombiano.

„Þessi harmleikur hryggir okkur mjög. Hugur okkar er hjá íbúum Mocoa. Við stöndum með þeim,“ sagði Marquez enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×