Erlent

Trump segir að enginn stjórnmálamaður í sögunni hafi fengið verri meðferð en hann sjálfur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varði forsetatíð sína í ræðu sem hann hélt í dag við útskrift strandgæsluliða. Segir hann að fjölmiðlar í Washington hafi komið við sig á ósanngjarnan hátt.

„Enginn stjórnmálamaður í sögunni hefur fengið verri eða jafn ósanngjarna meðferð,“ sagði Trump í ræðunni.

Hvert áfallið á fætur öðru hefur dunið á starfsmönnum Hvíta hússins á síðustu dögum. Dagurinn í gær var hins vegar sá versti síðan Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar.

Í gær greindi New York Times frá því að Trump hefði farið fram á það við James Comey, þáverandi yfirmann FBI, að alríkislögreglan léti af rannsókn á tengslum þjóðaröryggisráðgjafans fyrrverandi Michael Flynn við Rússland.

Trump vísaði ekki sérstaklega til þessarara fregna, né brottreksturs Comeys eða þá staðreynd að Trump lét rússneskum embættismönnum í té viðkvæmar trúnaðarupplýsingar. Þess í stað ræddi hann um mikilvægi þess að berjast fyrir sínu.

„Maður kemst fljótt að því að það er ekki allt sanngjarnt. Hlutir gerast sem maður telur sig ekki eiga skilið. Þá er mikilvægt berjast fyrir sínu og gefast aldrei upp. Hlutirnir munu reddast,“ sagði Trump.

Bætti hann við að þessi afstaða væri líkleg ástæða þess að hann hafi farið með sigur af hólmi í forsetakosningunum í haust.


Tengdar fréttir

Trump bað Comey um að binda enda á rannsókn FBI á Flynn

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór í febrúar fram á það við James Comey, þáverandi yfirmann FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, að hann myndi binda enda á rannsókn FBI á fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump.

Hávær köll um opinbera rannsókn

Ákvörðun Donalds Trump að deila trúnaðarupplýsingum með Rússum þykir afar umdeild. Forsetinn segist í fullum rétti. Óttast er að ákvörðunin geti haft áhrif á upplýsingastreymi til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×