Bandaríska öryggisfyrirtækið Symantec og rússneska öryggisfyrirtækið Kaspersky telja sig hafa fundið vísbendingar sem gefa til kynna að norður-kóreskir hakkarar hafi verið að verki þegar tölvuvírusinn WannaCry fór af stað á föstudag.
Hakkararnir eru vel þekktir enda hafa þeir staðið fyrir fjölmörgum tölvuárásum í gegnum tíðina en þeir ganga undir nafninu Lazarus Group.
Fyrirtækið Symantec hefur í gegnum tíðina rakið slóð tölvuþrjóta með góðum árangri en starfsmenn þess uppgötvuðu gamla útgáfu af WannaCry-vírusnum sem innihélt kóða sem notaður var í árás á Sony Pictures í febrúar árið 2014.
Bandarísk yfirvöld telja einmitt að yfirvöld í Pyongyang hafi stutt þá árás og þá hafa Lazarus-hakkarnarnir verið þekktir fyrir að nota Bitcoin í árásum sínum líkt og gert er nú.
WannaCry-veiran hefur sýkt hundruð þúsund tölva um allan heim og er þetta ein skæðasta tölvuárás sem gerð hefur verið.
Möguleg tengsl við Norður-Kóreu koma á sama tíma og bandarísk stjórnvöld sæta gagnrýni fyrir að hamstra njósnahugbúnað og tölvuvírusa en WannaCry-vírusinn byggir á kóða sem tilheyrði stafrænu vopnabúri Bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, og var stolið þaðan í ágúst 2016.
Rannsókn á tilurð og uppruna WannaCry-óværunnar er á byrjunarstigi en líklegt þykir margir mánuðir muni líða áður en niðurstaða liggur fyrir.
Fréttin hefur verið uppfærð.
