Fótbolti

Skellurinn á móti Hollandi sannfærði Frey um að breyta um leikkerfi fyrir EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir í baráttunni í leiknum á móti Hollandi í apríl.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir í baráttunni í leiknum á móti Hollandi í apríl. Vísir/Getty
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, gaf það út á blaðamannafundi í dag að hann ætlar að breyta um leikkerfi hjá íslenska liðinu og spila 3-4-3 kerfið á EM í Hollandi í júlí.

„Þetta kerfi hentar okkur miklu betur út frá leikmannahópnum," sagði Freyr Alexandersson við blaðamenn á fundinum í dag en þar tilkynnti hann leikmannahóp sinn fyrir vináttuleiki á móti Írlandi og Brasilíu í byrjun næsta mánaðar.

Íslenska stelpurnar fengu stóran skella á móti Hollandi í aprílmánuði þegar liðið tapaði 4-0 á móti gestgjöfum EM í sumar en Freyr lét liðið þá spila leikkerfið 4-2-3-1.

Freyr er búinn að fara vel yfir þann leik en öll tölfræði íslensku stelpnanna úr leiknum í apríl lítur mjög illa út fyrir íslenska liðið.

Tapið stóra og tölfræðin sannfærði Frey um að breyta um kerfi og hann hefur nú ákveðið að spila 3-4-3 í komandi vináttuleikjum gegn Írlandi og Brasilíu sem og á Evrópumótinu í Hollandi í sumar.

„Við höfum verið að fikta með þetta kerfi síðan í Kína í október í fyrra. Við höfum náð að þróa það í þessum þremir til fjórum leikjum sem við höfum spilað. Þegar við sækjum þá viljum við vera í 3-4-3. Þegar við pressum þá erum við í 3-4-3. Þegar við verjumst dýpra á vellinum þá erum við í 5-3-2 eða 5-4-1,“ sagði Freyr meðal annars á blaðamannafundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×