Erlent

Heitasta fjarreikistjarna sem hefur fundist

Kjartan Kjartansson skrifar
Hugmynd listamanns um hvernig KELT-9b (t.h.) og móðurstjarnan hennar gætu litið út.
Hugmynd listamanns um hvernig KELT-9b (t.h.) og móðurstjarnan hennar gætu litið út. teikning/Nasa/JPL-Caltech/R. Hurt (IPAC)
Lofthjúpur fjarreikistjörnu sem stjörnufræðingar hafa fundið er rúmlega nífalt heitari en Venus, heitasta reikistjarnan í sólkerfinu okkar. Fjarreikistjarnan er sú heitasta sem fundist hefur og jafnast hitastig hennar á við stjörnur.

KELT-9b er gasrisi í 650 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hitastigið yfir daginn er talið ná 4.300°C. Það er aðeins 1.300 gráðum „svalara“ en sólin okkar samkvæmt frétt Washington Post. Til samanburðar er hitastigið við yfirborð Venusar um 460°C sem er þó heitara en heitasti bakaraofn.

Reikistjarnan er svo heit að þrátt fyrir að hún sé þrefalt massameiri en Júpíter þá er stærsta reikistjarnan í sólkerfi okkar helmingi þéttari samkvæmt frétt The Guardian

Of heitt fyrir sameindir

Samband KELT-9b við móðurstjörnu sína, sem er bláhvítglóandi risastjarna, er sagt sérstakt. Það tekur reikistjörnuna aðeins einn og hálfan jarðdag að fara heilan hring um stjörnuna. Þá gengur reikistjarnan ekki í kringum miðbaug móðurstjörnunnar heldur yfir póla hennar.

Líkt og tunglið okkar er möndulsnúningur KELT-9b bundinn sem þýðir að hún snýr ætíð sömu hliðinni að stjörnunni. Hitastigið á daghlið KELT-9b er því svo hátt að sameindir í lofthjúpnum brotna niður. Telja stjörnufræðingarnir að hann sé því allur á formi frumeinda.

Einn stjörnufræðingur sem Washington Post ræðir við líkir KELT-9b við blending af reikistjörnu og stjörnu. Sú samlíking er þó ekki alls kostar nákvæm því enginn kjarnasamruni á sér stað í kjarna KELT-9b eins og á sér stað í stjörnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×