„Mér finnst ekki spurning að eigi að prófa sykurskattinn aftur á Íslandi. Það er líka mjög mikilvægt að það sé gert í ljósi þeirra staðreynda sem blasa við um tengda sjúkdóma og annað,“ segir Guðrún Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur. Hún skrifaði meistararitgerð í lýðheilsufræðum við læknadeild Háskóla Íslands sem ber titilinn Skattlagning og niðurgreiðsla matvæla – Áhrif á neysluhegðun.
Um er að ræða kerfisbundið yfirlit (e. systematic review) á öðrum rannsóknum sem hafa verið gerðar um skattlagningu og niðurgreiðslu matvæla. Yfirlitið bendir til þess að breytingar á matvælaverði hafi álíka áhrif á hlutfallslega neyslu þeirra matvæla hvort sem skattlagningu og/eða niðurgreiðslu er beitt. Hins vegar þurfa verðbreytingar að nema að lágmarki fimmtán til tuttugu prósentum svo það skili sér í breyttri neysluhegðun.
Þá benda niðurstöður einnig til þess að því meiri sem verðbreytingin er því líklegra er að það hafi áhrif á neysluhegðun. Niðurgreiðsla hollra matvæla hefur jákvæð áhrif á kauphegðun.
Guðrún segir ástæðu þess að hún hafi rannsakað þetta viðfangsefni vera að hún hafi mikinn áhuga á lýðheilsu og hvernig þetta tengist ójöfnuði í samfélaginu.
„Þeir sem eru tekjumeiri kaupa hollari mat en þeir sem hafa minna milli handanna. Þetta tengist kannski frekar ójöfnuði en einhverju öðru.“
Að mati Guðrúnar er þörf á frekari rannsóknum á Íslandi og annars staðar á þessu. „Helst einhverjar íhlutandi slembirannsóknir til að fá marktækari niðurstöður og sjá hvort þetta hafi áhrif almennilega, en það bendir allt til þess,“ segir Guðrún.
Hún telur að þörf sé á að láta reyna á sykurskatt aftur hér á landi. „Í fyrsta lagi var sykurskatturinn bara í ár og framleiðendur og birgjar voru búnir að kaupa mjög mikinn sykur fyrirfram, þannig að þetta bitnaði eiginlega ekki á framleiðendum og þetta hafði ekki áhrif á neytendur því þeir skattlögðu of lágt. En þetta skilaði næstum milljarði til ríkisins.“
Guðrún telur að til framtíðar mætti skattleggja sykruð matvæli, sem og önnur óholl matvæli, og nýta fjármagnið til að niðurgreiða holl matvæli, til dæmis grænmeti og ávexti, og fræða neytendur.
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2017-09-07T144452.760Z-haukar.png)
![](https://www.visir.is/vaktin/content/flags/2025-02-14T125946.545Z-2021-10-15T150140.503Z-Jeruzalem_Ormoz.png)