Fótbolti

Strákarnir okkar ná nýjum hæðum á styrkleikalista FIFA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir okkar unnu Króata í eina leik sínum í júní.
Strákarnir okkar unnu Króata í eina leik sínum í júní. vísir/ernir
Íslenska karlalandsliðið stekkur upp um þrjú sæti og í það nítjánda á nýjum styrkleikalista FIFA sem verður gefinn út á fimmtudaginn. Ísland hefur aldrei verið ofar á styrkleikalistanum.

Styrkleikalistinn hefur ekki enn verið gefinn út en spænski tölfræðingurinn Mister Chip hefur reiknað út hvernig hann mun líta út.

Strákarnir okkar unnu Króata í eina leik sínum í júní-mánuði og sá sigur skilar þeim upp um þrjú sæti á styrkleikalistanum. Króatía er í 15. sæti.

Íslendingar missa þó titilinn konungar norðursins því Svíar eru komnir upp í 18. sæti listans. Sænska liðið stekkur upp um heil 16 sæti á listanum.

Þjóðverjar, sem unnu Álfukeppnina í gær, taka toppsæti styrkleikalistans af Brasilíumönnum. Argentínumenn eru í 3. sæti og Portúgalar í því fjórða.

Sviss fer upp um fjögur sæti og í það fimmta og Pólland er í 6. sæti og hefur aldrei verið ofar á listanum.

Bandaríkin taka mikla dýfu og eru komin niður 36. sætið.

Styrkleikalisti FIFA:

1. Þýskaland

2. Brasilía

3. Argentína

4. Portúgal

5. Sviss

6. Pólland

7. Síle

8. Kólumbía

9. Frakkland

10. Belgía

11. Spánn

12. Ítalía

13. England

14. Perú

15. Króatía

16. Mexíkó

17. Úrúgvæ

18. Svíþjóð

19. Ísland

20. Wales




Fleiri fréttir

Sjá meira


×