Fótbolti

Glódís Perla: Fylgdum okkar skipulagi 100%

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir Mynd/Getty
Glódís Perla Viggósdóttir átti stórleik í varnarlínu Íslands í 1-0 tapi liðsins gegn Frökkum á Evrópumótinu í Hollandi í kvöld. Tómas Þór Þórðarson heyrði í henni hljóðið úti í Tilburg eftir leikinn.

„Þetta er svolítið upp og niður. Ótrúlega svekkjandi að fá á sig víti á lokamínútunum. Við vorum að fylgja skipulagi 100% og leikurinn var að spilast eins og við settum hann upp, þetta var allt að ganga upp hjá okkur.“

„Við áttum góð færi, þannig að það er skellur í andlitið að fá á sig víti og mark,“ sagði Glódís. „Við erum ótrúlega stoltar af okkar frammistöðu, við sýndum baráttu allan leikinn og héldum áfram eftir að við fengum á okkur markið.“

Fanndís Friðriksdóttir hefði átt að fá vítaspyrnu í fyrri hálfleik, að minnsta kosti ef miðað er við vítaspyrnuna sem íslenska liðið fékk dæmt á sig.

„Ég sá þetta ekki alveg nógu vel svo ég þori ekki að dæma um það en það er aðallega svekkjandi að manni finnst maður sjálfur hafa átt að fá víti og fær það svo í andlitið, en svona gerist í fótbolta.“

Íslenska liðið mætir Sviss á laugardaginn og má því ekki eyða of miklum tíma í vonbrigði yfir úrslitum kvöldsins. „Við hugsum í þetta í kannski klukkutíma og svo er bara að einbeita sér að næsta leik,“ sagði Glódís Perla. „Við erum ennþá inni í þessu móti og erum annþá með sama markmið og við vorum með. Við þurfum að halda áfram og getum ekki dvalið of lengi í þessu víti.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×