Fótbolti

Fanndís fékk óvænt símtal úr ókunnu númeri í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir.
Fanndís Friðriksdóttir. Vísir/Samett/KSI og Vihelm
Fanndís Friðriksdóttir og stelpurnar í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta hafa verið mjög áberandi á Íslandi síðustu vikurnar og það vita nánast allir Íslendingar að þær eru á leiðinni á EM í Hollandi.

Stelpurnar taka oftast mjög vel í það að koma fram og auglýsa sig og liðið en um leið gera þær sér vel grein fyrir því að þær eru líka að búa til sterkar fyrirmyndir fyrir framtíðar fótboltakonur landsins.

Fanndís og félagar lenda samt oft í aðstæðum sem þær eru ekki vanar að vera í. Þær leysa vandmálið þó jafnan með bros á vör og svo var einnig um óvænt símtal sem Fanndís fékk í gær.

Fanndís sagði í dag  blaðamanni sögu frá því sem gerðist eftir áritun kvennaliðsins á Laugardalsvellinum í gær. Aðdáendur íslenska liðsins áttu þá möguleika að fá áritun frá öllum leikmönnum liðsins.

„Við vorum að gefa eiginhandaáritanir í gær. Svo fékk ég símhringingu um kvöldmatarleitið úr ókunnu númeri. Þá voru það litlar stelpur sem misstu af mér í gær og langaði svo svakalega mikið að ég myndi skrifa á skóna þeirra,“ sagði Fanndís.

„Þær redduðu sér, fóru inn á já.is, fundu númerið mitt, hringdu og báðu mig um að koma og skrifa á skóinn,“ sagði Fanndís. Hún ætlar að verða við þeirri ósk.

„Ég geri það í dag,“ sagði Fanndís brosandi og það má búast við að stelpurnar brosi allan hringinn eftir að hafa fengið heimsókn frá landsliðskonunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×