Erlent

Kennir þinginu um slæmt og hættulegt samband við Rússland

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir samband ríkisins við Rússa aldrei hafa verið jafn slæmt og það sé hættulegt. Þá kenndi hann þinginu um ástandið, en hann skrifaði í gær undir frumvarp um hertar refsiaðgerðir gegn Rússlandi. Samkvæmt frumvarpinu getur Trump ekki aflétt þvingunum gegn Rússlandi án aðkomu þingsins.

Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna Bandaríkjanna kusu með frumvarpinu og neyddist Trump í raun til þess að skrifa undir það. Þingið var með það stóran meirihluta að þeir gætu samþykkt frumvarpið án undirskriftar forsetans.

Frumvarpið sem varð að lögum leggur einnig frekari refsiaðgerðir á Norður-Kóreu og Íran. Hertar aðgerðir gegn Rússlandi eru vegna tilrauna yfirvalda þar til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra og aðgerðir Rússlands í Úkraínu. Þar á meðal innlimun Krímskaga fyrir þremur árum.

„Samband okkar við Rússland hefur náð nýjum og mjög hættulegum lægðum. Þið getið þakkað þinginu, sama fólkinu og getur ekki einu sinni fært okkur heilbrigðisþjónustu!“ skrifaði forsetinn á Twitter.

Þegar Trump skrifaði undir frumvarpið í gær sagði hann það vera mein gallað og að mögulega bryti það gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna. Refsiaðgerðirnar sem frumvarpið segja til um snúa að orkugeira og vopnasölu Rússlands.

Yfirvöld í Rússlandi hafa brugðist illa við og Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, segir aðgerðirnar jafnast á við allsherjar viðskiptastríð.

Þá sendi Medvedev Trump tóninn á Twitter og sagði þingið hafa spilað með hann.


Tengdar fréttir

Kushner: Framboð Trump var of óskipulagt til að eiga samráð við Rússa

Tengdasonur Donalds Trump Bandaríkjaforseta útskýrði fyrir hópi lærlinga í Bandaríkjaþingi að forsetaframboð tengdaföður síns hafi verið of glundroðakennt til að það hafi getað staðið í samráði við rússnesk stjórnvöld. Blaðafulltrúi Hvíta hússins segir að forsetinn hafi komið að misvísandi yfirlýsingu sem sonur hans gaf út um umdeildan fund með rússneskum lögmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×