Erlent

Christopher Wray nýr forstjóri FBI

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Wray hefur heitið því að vera óháður Hvíta húsinu í starfi.
Wray hefur heitið því að vera óháður Hvíta húsinu í starfi. Vísir/EPA
Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í kvöld með 92 atkvæðum gegn 5 að Christopher Wray taki við starfi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Wray hefur undanfarin ár starfað sem lögmaður en var hátt settur í dómsmálaráðuneytinu í forsetatíð George W. Bush. Dómsmálanefnd öldungadeildarinnar mælti einróma með Wray í starfið þann 20. júlí síðastliðinn.

Wray hefur heitið því að vera óháður Hvíta húsinu í starfi. Hann hefur ítrekað sagt þingnefnd að hann muni ekki halda aftur af sér í starfi og að hann muni segja af sér verði hann beðinn um að gera eitthvað ólöglegt eða siðferðislega rangt.

„Mín hollusta er við lög og reglu, stjórnarskrána og staðreyndir,“ sagði Wray við dómsmálanefnd öldungadeildarinnar.

„Það er ekki manneskja á þessari plánetu sem gæti reynt að sannfæra mig að hætta við vel ígrundaða og virðingaverða rannsókn.“

Wray tekur við af James Comey, sem var rekinn þann 10. maí síðastliðinn. Ástæðan sem Hvíta húsið gaf fyrir brottrekstri Comey var meðal annars hvernig hann meðhöndlaði rannsókn FBI á tölvupóstum Hillary Clinton. FBI er hins vegar með starfsmenn forsetaframboðs Donald Trump til rannsóknar vegna mögulegs samstarfs þeirra við yfirvöld í Rússlandi við að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra.

Andrew McCabe hefur verið starfandi forstjóri FBI síðan 10.maí. Ekki er vitað hvað tekur nú við hjá honum.


Tengdar fréttir

Comey hélt að brottreksturinn væri hrekkur

James Comey, sem rekinn var sem yfirmaður FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, í gær af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hélt í fyrstu að fregnir af brottrekstrinum væri hrekkur. Hann var staddur í Los Angeles þegar fregnirnar bárust honum.

Trump ræðst enn á eigin dómsmálaráðherra og yfirmann FBI

Reiðilestur Donald Trump Bandaríkjaforseta yfir Jeff Sessions dómsmálaráðherra heldur áfram. Nú vill forsetinn vita hvers vegna Sessions hefur ekki látið starfandi forstjóra FBI fara vegna meints hagsmunaáreksturs við rannsókn á Hillary Clinton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×