Varnir ISIS-liða brustu í nótt og gerði það stjórnarhernum kleift að aftengja jarðsprengjur sem komið hafði verið fyrir við herstöð í borginni. Hermenn sem varið höfðu stöðina voru frelsinu fegnir þegar liðsaukinn barst.
Sigur stjórnarhersins í gær er einn fjöldamargra sem hermenn hliðhollir Bashar al-Assad Sýrlandsforseta hafa fagnað á síðustu vikum og mánuðum. Er það ekki síst fyrir tilstuðlan loftárasa Rússa og aðstoðar Hesbollah sem sýrlenski stjórnarherinn hefur bætt við sig miklu landssvæði á síðustu dögum.
Í tilkynningu frá hernum segir að sigurinn í gær sé vendipunktur í baráttunni gegn hryðjuverkum og að borgin verði nýtt sem „stökkpallur fyrir frekari hernaðarsigra á svæðinu.“
Hershöfðinginn Suheil al-Hassan, sem oftar en ekki er kallaður Tígurinn, fór fyrir aðgerðunum í nótt en sveitir á hans vegum hafa unnið stóra sigra síðastliðin ár í baráttunni gegn Íslamska ríkinu. Má þar nefna þegar stjórnarhernum tókst að ná austurhluta Aleppoborgar aftur á sitt vald í desember í fyrra - sem alla jafna er talinn stærsti stigur frá upphafi borgarastyrjaldarinnar árið 2011.