Innlent

Hvasst og vætusamt en hlýtt í veðri

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jæja, það er komið haust.
Jæja, það er komið haust. Vísir/Ernir
Búast má við talsverðri eða mikilli rigningu suðaustantil á landinu fram eftir degi. Suðaustanstormur verður á miðhálendinu og við norðausturströndina í dag og við suðurströnd landsins annað kvöld.

Hvöss suðaustanátt verður á austanverðu landinu í dag, en hægari vestan til. Rigning talsvert á suðausturlandi fram eftir degi, en dregur síðan úr vætunni. Snýst í suðvestanstrekkingsvind með skúrum eftir hádegi, fyrst suðvestanlands. Fremur hæg suðaustanátt og úrkomulítið á morgun, en hvessir með og fer að rigna syðst um kvöldið. Áfram suðaustanáttir með rigningu næstu daga, síst þó fyrir norðan, en fremur hlýtt í veðri.

Veðurhorfur á landinu

Suðaustan 10-18 m/s, hvassast A-til, en 18-23 við NA-ströndina um tíma í dag. Talsverð eða mikil rigning SA-til, rigning með köflum SV-til, en birtir til fyrir norðan. Snýst í suðvestan 10-18 með skúrum þegar líður daginn, fyrst SV-lands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast NA-til, en kólnar heldur í kvöld.

Vaxandi suðaustanátt á morgun, 15-23 m/s og fer að rigna S-lands um kvöldið, hvassast við ströndina. Annars mun hægari og þurrt að kalla. Heldur svalara veður.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Vaxandi suðaustanátt og skúrir, 15-23 m/s S-til undir kvöld, hvassast syðst og fer að rigna, en hægari norðan heiða og lengst af bjartviðri. Hiti 8 til 13 stig.

Á þriðjudag:

Suðaustan 10-18 m/s og talsverð, jafn vel mikil rigning A-til, hvassast á annesjum, en annars mun hægari og úrkomuminni. Hiti víða 9 til 14 stig.

Á miðvikudag:

Ákveðin suðaustanátt með talsverðri eða mikilli rigningu rigningu á S-verðu landinu, en mun úrkomuminna fyrir norðan. Áfram fremur hlýtt í veðri.

Á fimmtudag:

Suðaustanátt og áfram rigning fyrir austan, en annars þurrt að kalla og milt veður.

Á föstudag og laugardag:

Útlit fyrir austlæga átt með vætu víða á landinu og heldur kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×