Jolyon Palmer hefur staðfest að hann muni ekki aka fleiri keppnir fyrir Renault liðið í ár. Carlos Sainz sem hefur þegar verið lánaður til Renault frá Toro Rosso fyrir næsta ár tekur sæti hans.
„Japanski kappaksturinn verður mín síðasta keppni fyrir Renautl,“ sagði í yfirlýsingu frá Palmer.
„Þetta hefur verið erfitt tímabil og ég hef gengið í gegnum mikið undanfarin þrjú ár en þetta hefur verið frábært ferðalag með liðinu,“ stóð enn frekar í yfirlýsingunni.
„Ég ætla að einbeita mér að góðum úrslitum í Japanska kappakstrinum og þá get ég metið framtíðina,“ sagði að lokum í yfirlýsingunni.
Líklega verða það Pierre Gasly og Daniil Kvyat sem munu ljúka tímabilinu hjá Toro Rosso. Hins vegar myndi það þýða að Gasly fórni Súper Formúlu titlinum sem hann á góða möguleika á að vinna, síðasta keppnin í þeirri mótaröð fer fram á sama tíma og bandaríski kappaksturinn.

